Print
Jun
23

Veiðidagur fjölskyldunnar 2016

Veiðidagur fjölskyldunnar verður haldinn næstkomandi sunnudag, 26. júní. Þá gefst landsmönnum kostur á að veiða án endurgjalds í fjölmörgum vötnum víðsvegar um landið.

 Landssamband Stangaveiðifélaga hefur staðið fyrir Veiðidegi fjölskyldunnar í á þriðja áratug ásamt veiðiréttareigendum.VF2016

Hugmyndin á bak við daginn er að kynna stangveiði sem fjölskylduíþrótt. Í ár verða 29 vötn í boði á veiðideginum.

Eftirtaldir veiðistaðir verða í boði frítt fyrir alla fjölskylduna:

Á Suðurlandi verður frítt að veiða í Eyrarvatni, Geitabergsvatni, Þórisstaðavatni, Elliðavatni, Meðalfellsvatni, Þingvallavatni fyrir landi þjóðgarðsins, Úlfljótsvatni og Gíslholtsvatni.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum verður frítt að veiða í Langavatni á Mýrum, Hítarvatni, Hraunsfjarðarvatni, Hraunsfirði, Baulárvallavatni, Haukadalsvatni, Vatnsdalsvatni í Vatnsfirði og Syðridalsvatni í Bolungarvík.

Á Norðurlandi verður frítt að veiða í Hópinu, Höfðavatni, Botnsvatni, Ljósavatni, Hraunhafnarvatni, Æðarvatni, Arnarvatni, Kringluvatni og Sléttuhlíðarvatni.

Á Austurlandi verður frítt að veiða í Urriðavatni, Langavatni, Víkurflóði og Þveit.

Nánari upplýsingar um veiðisvæðin er að finna á plakati LS um Veiðidag fjölskyldunnar. Smellið HÉR til að opna plakatið.

Print
Apr
21

Vel heppnað málþing í Háskólabíó.

Málþing LS og LV um neikvæð umhverfisáhrif sjókvíaeldis við Íslandsstrendur var haldið fimmtudaginn 14.apríl í Háskólabíói og þótti takast með ágætum.  Haldnir voru fjórir fyrirlestrar og umræður í lokin.

Slóðin á fyrirlestrana er: https://www.youtube.com/channel/UCWmKqS7s4mqXHe9IKfwBgrw

Málþingið sendi frá sér eftirfarandi ályktun:

"Fundur í Háskólabíó 14. apríl 2016 mótmælir harðlega áformum um stóraukið laxeldi í sjókvíum í fjörðum á Íslandi.
Reynslan sýnir að lax- og silungsstofnum er mikil hætta búin fari svo fram sem horfir.
Fundurinn hvetur alla til aðgerða á grundvelli laga, stjórnmála og náttúruverndar gegn þessari alvarlegu vá sem nú steðjar að íslenskum veiðiám.
Fundurinn vekur athygli á að sjókvíaeldisfyrirtækin, sem flest eru að stórum hluta í eigu erlendra aðila, hafa nú fengið þessa auðlind hafsins afhenta í formi ókeypis laxeldisleyfa og án mikils endurgjalds.
Fundurinn skorar á stjórnvöld að láta viðkvæma náttúru landsins njóta vafans þegar ákvarðanir eru teknar um rekstrarleyfi fyrirtækjanna." 

Print
Apr
11

Neikvæð umhverfisáhrif sjókvíaeldis – Verndum íslenska laxfiska

Málþing í Háskólabíó 14. apríl 2016

Fimmtudaginn 14. apríl n.k. verður haldið málþing um neikvæð umhverfisáhrif sjókvíaeldis við Íslandsstrendur. Það eru Landssamband veiðifélaga og Landssamband stangaveiðifélaga sem standa fyrir málþinginu í samstarfi við Angling iQ. Málþingið hefst kl. 16:10 og mun það fara fram í aðalsal Háskólabíós og er aðgangur að málþinginu ókeypis.

Frummælendur koma víða að en þeir eru:

Orri Vigfússon, formaður North Atlantic Salmon Fund, sem berst fyrir verndun laxastofna Norður-Atlantshafsins.

Erlendur Steinar Friðriksson, sjávarútvegsfræðingur og doktorsnemi í fiskifræðum. Erlendur mun fjalla um umfang og áhrif sjókvíaeldis á norskum laxi í Eyjafirði.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar. Erindi hans nefnist Áskoranir í íslensku fiskeldi.

Kjetil Hindar, yfirmaður rannsókna hjá Norsk institutt for naturforskning (NINA). Kjetil mun fjalla um erfða- og vistfræðileg áhrif strokinna eldislaxa á villta laxastofna í Noregi.

Fundarstjóri er Hilmar Bragi Janusson, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.

Málþingið mun fara fram samhliða veiðisýningunni RISE í Háskólabíó fimmtudaginn 14. apríl og mun standa frá kl. 16:10 til kl. 18:30 með hléi.

Allar nánari upplýsingar veitir formaður Landssambands veiðifélaga, Jón Helgi Björnsson.

Sími: 8933778

Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.